Virðum reglur um vatnsverndarsvæði

Virðum reglur um vatnsverndarsvæði

Neysluvatn er matvara.

Akureyringar fá 80% af neysluvatni sínu frá lindarsvæðum í Hlíðarfjalli og er svæðið skilgreint á myndinni sem fylgir þessari frétt. Svæðið samanstendur af Sellandslindum, sem staðsettar eru rétt suðvestan við skíðasvæðið og Hesjuvallalindum rétt norðan við skíðasvæðið. Hafa þarf í huga að tiltölulega stutt er niður á grunnvatnsstraumana sem fæðir þessar lindir. Í kringum öll vatnsból eru skilgreind vatnsverndarsvæði sem skipt er í lindarsvæði, nærsvæði og fjarsvæði. Mikilvægt er að allir gangi af virðingu um þessa lífsnauðsynlegu auðlind og sýni því skilning að settar eru reglur sem takmarka ágangá svæðinu. Öll umferð vélknúinna ökutækja er bönnuð á vatnsverndarsvæðum Norðurorku á Glerárdal. útivistarfólk sem mikið er á ferðinni á þessu svæði er einnig beðið um að sýna aðgát að ganga vel um jafnt sumar sem vetur. Þá er brýnt fyrir fólki að virða reglur um bann við gæludýrum á svæðinu. Minniháttar óhapp getur í raun gert lindirnar óhæfar til vinnslu neysluvatns. Það getur orðið stórmál fyrir íbúa bæjarins og fyrir atvinnulíf á Akureyri, ekki síst þau fjölmörgu matvælafyrirtæki sem hér eru starfandi. Í gildi er samningur við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra um reglubundið eftirlit með vatnslindum Norðurorku.

Umferð vélknúinna ökutækja er bönnuð á svæði sem markað er með rauðum ramma á myndinni. Útivistarfólk er einnig beðið um að ganga varlega um og virða reglur um bann við gæludýrum á svæðinu. 


Svæði